Undankeppni EM í körfuknattleik – Székesfehervár/Ungverjalandi 14. til 18 febrúar 2022

Stjórn ÍSL ákvað að senda lið til þátttöku í Evrópumótinu í körfuknattleik en við íslendingar eigum nokkuð gott körfuboltalið enda allnokkrir lögreglumenn sem eiga að baki feril í úrvalsdeildinni hér heima.

Evrópumótið átti að fara fram árið 2021 en því var eins og svo mörgu öðru slegið á frest þar til í ár og áttum við upphaflega að mæta tveimur liðum í undankeppninni þ.e. Ungverjalandi og Mónakó. Svo fór að Mónakó dró lið sitt úr keppni vegna heimsfaraldursins og lá því fyrir að Ísland myndi mæta Ungverjalandi á þeirra heimavelli tvívegis þar sem samanlögð úrslit myndu ráða því hvort liðið kæmist í úrslitakeppni EM sem fram fer í júní n.k. í Frakklandi.

Ungverjar hafa verið með gott lið í gegnum tíðina og lenti t.a.m. í fimmta sæti á EM 2017.

Lið Íslands hélt utan mánudaginn 14.febrúar og var hópurinn skipaður þannig.  Ólafur Örvar Ólafsson Suðurnesjum fararstjóri, Jón Þór Eyþórsson RLS þjálfari, Jón G. Sigurgeirsson LRH, í fararstjórn. Leikmenn, Níels P. Dungal, Haukur Gunnarsson, Magnús I. Hjálmarsson, Andrés Kristleifsson og Arnar G. Skúlason LRH. Ingvaldur Magni Hafsteinsson, Magnús Pálsson og Egill Egilsson RLS, Sigurjón Ívarsson og Snorri Þorvaldsson Suðurlandi, Emil Örn Árnason og Atli Barðason Suðurnesjum.

Strax var ljóst við komuna til Ungverjalands að vel yrði séð um liðið.  Fengum við strax góðar móttökur, lögreglumann sem hefur starfað í 25 ár sem lögreglumaður en hans aðalstarf er eingöngu lögregluíþróttir og allt utanumhald hvað það varðar.

Frá Budapest tók við talsverður akstur í borgina Szekesfehervar  sem er um 80 km vestan við Budapest..  Þar dvaldi liðið þessa fjóra daga í mjög góður yfirlæti.  Aðstæður allar hinar bestu og hótelið frábært.  Fóru æfingar og leikir fram í körfuboltahöll sem landslið þeirra Ungverja m.a. notar við æfingar sínar og er staðsett líklega um 50 metra frá hótelinu sem liðið dvaldi á.

Strax daginn eftir komuna reimuðu menn skóna á sig og tóku góða æfingu í körfuboltahöllinni.   Mikil einbeiting í mannskapnum enda höfðu menn þá skömmu áður séð Ungverjana ganga til æfinga í sömu höll.   Alveg óhætt að segja að Ungverjarnir litu út fyrir að vera með mjög öflugt lið og með marga leikmenn um eða yfir 2 metrana.

Miðvikudaginn 16.febrúar fór fram setningarathöfn í höllinni þangað sem allnokkrir gestir voru mættir.  Var þar um að ræða m.a. lögreglustjóra borgarinnar auk fleiri mætra gesta.   Að lokinni athöfn þar sem Haukur Gunnarsson, LRH, var fánaberi hófst undirbúningur leiksins.

Þjálfarar og leikmenn Íslands vissu lítið um mótherjann en fylgdust vel með þeim í upphitun til að kortleggja getu leikmanna.   Var ótrúlegt að fylgjast með mótherjanum þar sem hvert þriggja stiga skotið datt niður og rúmlega helmingur leikmanna liðsins tróð boltanum í körfuna hvað eftir annað.

Ég hugsa að þetta hafi kveikt vel í íslenska liðinu og orðið til þess að liðið mætti algjörlega á tánum og tilbúið í leikinn.

Aðra eins byrjun á körfuboltaleik hef ég aldrei orðið vitni af en byrjunarlið var eftirfarandi, Ingvaldur Magni sem var fyrirliði, Magnús P., Egill, Snorri og Andrés. Íslenska liðið gjörsamlega kafsigldi það ungverska og lengi vel hafði ungverska liðið aðeins skorað eina körfu í fyrsta leikhluta.  Staðan svo eftir fyrsta leikhluta var 4-28.   Vörn íslenska liðsins var svakaleg á þessum tíma og stálu menn fjölmörgum boltum sem skiluðu sér í góðum hraðaupphlaupum og auðveldum körfum.   Svo hissa voru gestir á pöllunum að þeir komu strax til mín að loknum fyrsta leikhluta og óskuðu okkur til hamingju með farseðilinn til Frakklands.    Ég benti þeim hinsvegar á að aðeins væri einn leikhluti búinn af átta.

Ungverjar vöknuðu til lífsins í öðrum leikhluta enda vart annað hægt.  Fór svo að þeir unnu leikhlutann sannfærandi og spiluðu mun betur,  Ísland leiddi þó sannfærandi í hálfleik, 43-27, en leikurinn þó alveg opinn.

Byrjunarliðið í seinni hálfleik, Egill, Haukur, Magnús P., Níels og Arnar. Ræða þjálfarans og það að mönnum var kippt aðeins niður á jörðina í öðrum leikhluta varð svo til þess að íslenska liðið hélt áfram að keyra á það ungverska og sigldi hægt og rólega aftur fram úr.   Vörnin þétti sig aftur og lokaði nánast á ungverska liðið í hverri sókn og leiddi þetta til stórsigurs 45-94 en eins og sést á stigaskorinu skoraði það ungverska aðeins 18 stig í síðari hálfleik öllum.

Þar sem lið Mónakó hætti við þátttöku ákvað tækninefnd USPE að tveir leikir yrðu spilaðir milli liðanna. Stigatalan myndi síðan gilda ef liðin myndu vinna sitthvorn leikinn.

Því var mikilvægt að halda haus og sigra leikinn eins stórt og mögulegt var, geta þá heldur slakað á í seinni leiknum.

Nokkrir leikmenn íslenska liðsins sýndu stórkostlega frammistöðu í leiknum og höfðu menn á orði að þarna færu leikmenn sem myndu sóma sig vel í úrvalsdeild þeirra ungversku.  Ég get alveg tekið undir það eftir að hafa fylgst með leiknum enda hittni og varnartilburðir leikmanna algjörlega ótrúlegir.  Fremstur var Egill Egilsson  en hann raðaði niður þriggja stiga körfunum og spilaði vel í gegnum allan leikinn, skoraði hann 28 stig í leiknum.

Stigaskor leikmanna Íslands skiptist svona í fyrri leiknum:

Egill Egilsson 28, Magnús Pálsson 16, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 15, Andrés Kristleifsson 15,  Snorri Þorvaldsson 14, Emil Árnason 4, Haukur Gunnarsson 4, Arnar Skúlason 2, Níels Dungal 2

Eftir fyrri leikinn fór íslenska liðið ásamt ungverska aðstoðarmanni okkar í skoðunarferð til Budapest.   Fórum við undir hans leiðsögn aðeins um miðborgina og að Dóná.   Liðið fór síðan saman út að borða á flottu steikhúsi í miðborg Búdapest áður en heim í sveit var haldið og undirbúningur fyrir seinni leikinn hófst.

Seinni leikurinn fór svo fram fimmtudaginn 17. febrúar.

Í ljósi úrslita leiksins daginn áður mættu menn ögn rólegri til leiks enda þá aðeins fengið að kynnast og taka á mótherjanum.   Jón Þór, þjálfari liðsins, stillti upp sama byrjunarliði, og í fyrri leiknum, Ingvaldur Magni, Magnús P., Egill, Snorri og Andrés. Þjálfarinn vildi sigur og ekkert annað.  Ísland náði strax undirtökunum en ungverska liðið var þó mun líflegra en í fyrri leiknum.  Egill Egilsson hélt áfram skotsýningunni og raðaði niður þristunum.  Staðan í hálfleik var 41 – 24 okkur í vil. Byrjunarliðið í seinni hálfleik var eftirfarandi Ingvaldur Magni, Snorri, Andrés, Egill og Magnús Ingi.  Jón Þór nýtti allt liðið talsvert í þessum leik og fengu allir leikmenn að spila þónokkuð.   Ungverjar tóku ágætis „run“ undir lok leiksins og minnkuðu muninn hægt og þætt en þá skelltum við bara aftur í lás og sigldum þessu heim.   Góður sigur Íslands í einnig leiknum einnig 84-69.

Stigaskor í leiknum:

Egill Egilsson 23, Magnús Pálsson 20, Ingvaldur Magni 12, Andrés Kristleifsson 10, Níels Dungal 6, Arnar Skúlason 5, Snorri Þorvaldsson 4, Magnús Hjálmarsson 2, Sigurjón Ívarsson 1.

Ingvaldur Magni sem einsog áður sagði skoraði 12 stig átti líklega flottustu körfu leiksins þegar hann keyrðu meðfram endalínunni að körfunni og tróð boltanum með látum, eitthvað sem menn höfðu kallað eftir eftir fyrri leikinn en þá hafði hann fengið tækifæri til þess að troða en sleppti því.   Menn höfðu á orði að kallinn væri þá orðinn helst til gamall en því ákvað fyrirliðinn að svara með þessari flottu troðslu sem reyndist sú eina í báðum þessum leikjum.

Það er öllum ljóst að þetta íslenska lið er gríðarlega sterkt og líklega það sterkasta sem við höfum átt frá upphafi.  Liðið hefur nú tryggt sig inn í úrslitakeppni 8 sterkustu liða Evrópu.   Í úrslitakeppnina mæta síðan stórþjóðir körfuboltans eins og Litháen, Grikkland og Frakkland.

Þrátt fyrir að við hefðum teflt fram sterku liði í Ungverjalandi voru þónokkrir leikmenn sem ekki gátu gefið kost á sér í þetta verkefni.    Má því gera ráð fyrir að þeir leikmenn bætist amk í æfingarhóp Íslands og reyni að koma sér í liðið.   Algjörlega ljóst að samkeppnin um stöður í hópnum fyrir lokamótið er hörð.

Úrslitakeppnin er spiluð í tveimur fjögurra liða riðlum og síðan um sæti.  Ef Ísland verður ekki eins óheppið og í síðustu lokakeppni þar sem liðið lenti með Litháen og Grikklandi í riðli má alveg hafa uppi stórar væntingar og sé ég þetta lið spila amk um verðlaunasæti.

Að loknum leikjum var íslenska liðinu boðið í gönguferð um borgina, ásamt liði Ungverja og þeim sem að mótinu komu.  Var gengið undir leiðsögn um söguslóðir borgarinnar og endaði gönguferðin í móttöku hjá borgarstjóranum sem óskaði íslenska liðinu til hamingju með góðan sigur og kvaðst vona að liðið myndi leika til verðlauna í Frakklandi.

Hefð er fyrir því að bjóða nýliða velkomna í hópinn með sérstakri athöfn að lokinni keppni og á því var engin undantekning nú enda fjöldi nýliða nokkur í þessari ferð, 8 manns. Fengu þeir afhenta bindinælu ÍSL eins og reglur og hefð eru fyrir.

Veglegt lokahóf var síðan á liðshótelinu um kvöldið þar sem liðin tókust í hendur, skiptust á búningum og skemmtu sér saman fram á kvöld.

Jón Gunnar Sigurgeirsson
í fararstjórn

Scroll to Top