Íþróttir lögreglumanna að loknu Covid 19

Þegar þetta er skrifað er komið fram yfir miðjan febrúarmánuð 2022 og smittölur í hæstu hæðum en ástandið samt að batna. Að því er virðist, af ýmsu, er afnám allra Covid reglna/hafta framundan. Þessi tvö ár í Covid hafa reynt á þolrif allra og haft mikil áhrif á öllum sviðum mannlífsins.

Íþróttir lögreglumanna hafa ekki farið varhluta af því frekar en allt annað. Í þessi tvö ár höfum við aðeins náð að halda landsmót í golfi og holukeppni í golfi. Önnur landsmót hafa fallið niður. Við þurfum núna að setja allt í gang til að koma landsmótum í gang aftur og vonandi náum við að halda landsmótið í innanhússknattspyrnu í vor. Þá er og stefnt á að halda landsmót í pílukasti þegar færi gefst.

Norðurlandamót hafa ekki farið fram fyrir utan eitt sem fór fram s.l. haust í Svíþjóð en þar var á ferðinni NPC í ratleikni. NPC í skotfimi hefur verið fresta tvisvar en í handknattleik og golfi einu sinni. Þessi mót eiga að fara fram á þessu ári. Skotfimin á að fara fram hér á landi í maí. Það verða um 60 erlendir kollekar okkar sem koma til mótsins. Handknattleikurinn fer fram í Svíþjóð á Stokkhólmssvæðinu. ÍSL hefur tilkynnt um þátttöku bæði í karla- og kvennaflokki. NPC í golfi hefur verið tímasett í byrjun september í Stavanger. Þangað förum við með karlalið og vonandi einnig með konur.

Evrópumótin hafa einnig öll meira og minna fallið niður eða verið frestað. Hvað okkur varðar þá höfum við ekki mikið tekið þátt í EPM mótum, á undanförnum árum, en þó hafði Covidið af okkur þátttöku í evrópumóti kvenna í körfuknattleik sem fram átti að fara á síðasta ári, í Bretlandi, en var fellt niður. Því miður fyrir okkur þar sem við virtumst eiga nokkuð sterkt lið. Á þessu ári eru tvö EPC mót sem við höfum tilkynn þáttöku í. EPC í körfuknattleik sem fram á að fara í Limogen í Frakklandi i júní. Við þurfum hins vegar að taka þátt í undankeppni og þegar þetta er ritað er hún yfirstaðin og við komnir í úrslitin í Frakklandi. (Sjá grein um undankeppnina). Við höfum einnig tilkynnt þátttöku í Maraþoni sem fram á að fara í Hollandi. Þangað ætlum við að fara með 1 – 2 af hvoru kyninu.

Þing Norræna lögregluíþróttasambandsins, NPSA, hvar við höfum farið með formennsku í, fer fram á Íslandi í lok apríl n.k. Þingið átti að fara fram á síðasta ári en var frestað vegna Covid. Formennska okkar í sambandinu var framlengd um eitt ár og erum við því að skila af okkur eftir 3 ár. Þingið mun fara fram á Hótel Örk og verða um 18 þingfulltrúar.

 

Óskar Bjartmarz
formaður ÍSL

 

Scroll to Top