Íþróttasamband Lögreglumanna
LÖG
1. grein: Nafn sambandsins er: Íþróttasamband Lögreglumanna Skammstafað ÍSL Icelandic Police Sports Federation. Skammstafað IPSF Islands Politi Idrætsforbund. Skammstafað IPIF. Lögheimili ÍSL skal vera þar sem það hefur skrifstofu sína á hverjum tíma.
2. grein Tilgangur sambandsins er: Að stuðla að eflingu íþrótta meðal lögreglumanna. Að auka kynningu meðal lögreglumanna. Að bæta aðstöðu þeirra til íþróttaiðkana. Að koma fram erlendis fyrir hönd íslenskra lögreglumanna og vera aðili að alþjóðasamtökum lögreglumanna í íþróttum. Að stuðla að góðum kynnum við erlenda starfsbræður. Að stuðla að auknum samskiptum aðildarfélaga á vettvangi íþrótta.
3. grein Rétt á aðild að ÍSL eiga öll íþróttafélög meðal lögreglumanna eða íþróttanefndir. Aðeins eitt félag eða nefnd frá hverju embætti getur átt aðild að ÍSL. Aðildarfélög ÍSL skulu greiða til þess árgjald sem miðast við ákveðna upphæð á hvern þingfulltrúa, sem félagið eða nefndin á rétt á að senda á þing ÍSL. Réttur til þingsetu fellur niður hafi árgjald ekki verið greitt er þing hefst. Félög eða nefndir sem óska inngöngu í ÍSL skulu senda stjórn ÍSL skriflega umsókn ásamt lögum/reglum félagsins eða nefndarinnar. Stjórn ÍSL getur síðan veitt félaginu eða nefndinni bráðbirgða aðild að ÍSL sem næsta þing ÍSL tekur síðan endanlega ákvörðun um. Ef lög eða reglur viðkomandi félags eða nefndar stangast á einhvern hátt á við lög ÍSL skal hafna umsókninni. Viðkomandi félag eða nefnd skal vera opin öllum lögreglumönnum hjá viðkomandi embætti.
4. grein Málefnum ÍSL stjórnar. 1. Þing ÍSL. 2. Stjórn ÍSL 3. Framkvæmdastjórn ÍSL
5. grein Þing ÍSL fer með æðsta vald í málefnum sambandsins. Þingið sitja fulltrúar þeirra félaga eða nefnda sem mynda ÍSL Fulltrúatala hvers félags á þinginu skal miðast við að félaginu eða nefndinni sé heimilt að senda 1 fulltrúa fyrir hverja byrjaða 25 starfandi lögreglumenn , þó ekki fleiri en 10 frá hverju félagi eða nefnd. Fulltrúar skulu hafa kjörbréf. Á þinginu hafa fulltrúar atkvæðisrétt. Þeir sem einnig hafa rétt til þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt eru: 1. Stjórn ÍSL 2. Endurskoðendur ÍSL
Auk þes getur stjórn ÍSL boðið öðrum þingsetu ef hún telur ástæðu til. Hver fulltrúi fer með 1 atkvæði, hann getur þó farið með fleiri atkvæði síns félags. Þing ÍSL skal haldið á 2ja ára fresti. Til þingsins skal boðað bréflega með minnst 1 mánaðar fyrirvara. Með þingboði skal fylgja kjörbréf. Málefni sem aðildarfélög ÍSL óska eftir að tekin verði fyrir á þinginu skulu tilkynnt stjórn sambandsins minnst 15 dögum fyrir þingið og skal stjórn sambandsins senda öllum aðildarfélögum gögn um þau málefni eigi síðar en 10 dögum fyrir þingið. Ávallt skal miðast við að þingið sé haldið í tengslum við landsmót lögreglumanna í innanhússknattspyrnu. Stjórn ÍSL er því heimilt að ef sérstakar aðstæður liggja fyrir að halda þingið á öðrum tíma. Allar áðurnefndar tímasetningar varðandi boðun til þings og um málefni til þingsins skulu vera þær sömu. Þingið er löglegt sé löglega til þess boðað.
6. grein Aukaþing má halda ef nauðsyn krefur eða helmingur sambandsaðila óskar þess. Alla boðunar og tilkynningarfresti til aukaþings má hafa helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan. Þó má kjósa að nýju fulltrúa fyrir þann sem er látinn, veikur, hættur störfum, fluttur eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera laga eða leikreglnabreytingar og má ekki kjósa stjórn nema bráðabirgða stjórn. Ef meirihluti kjörinnar stjórnar hefur sagt af sér eða stjórnin að eigin dómi orðin óstarfhæf. Að öðru leiti gilda um aukaþing sömu reglur og um reglulegt sambandsþing.
7. grein Störf landssambandsþings eru: 1. Þingsetning. 2. Kosning 3ja. manna í kjörbréfanefnd. 3. Kosinn þingforseti. 4. Kosinn þingritari. 5. Þinggerð síðsta þings lögð fram. 6. Kosnar þær nefndir sem talið er nauðsynlegt að starfi á þinginu. 7. Lögð fram skýrsla fráfarandi stjórnar. 8. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga til samþykktar. 9. Lagðar fram laga og leikreglnabreytingar sem fram hafa komið. 10. Tekin ákvörðun um árgjald aðildarfélaga. 11. Önnur mál. 12. Kosning formanns. 13. Kosning stjórnar. 14. Kosning endurskoðenda. 15. Þingslit. Meirihluti skal ráða kosningu sem er bundin. Verði jafnt eftir kosningu skal hlutkesti ráða. Krefjist einhver fulltrúi skriflegrar kosningar skal hún framkvæmd þannig. Ekki er heimilt að taka fyrir á landssambandsþingi mál sem hafa borist eftir að áðurnefndir frestir til að skila inn tillögum er útrunnin, nema ¾ hlutar viðstaddra þingfulltrúa samþykki. Tillögur um lagabreytingar hljóta aðeins samþykki að ¾ hlutar greiddra atkvæða hafi samþykkt tillöguna.
8. grein Stjórn ÍSL fer með æðsta vald í málefnum ÍSL á milli þinga. Stjórnin skal skipuð 11 mönnum. Formaður skal kosinn fyrst og síðan 10 aðrir stjórnarmenn. Allir landsfjórðungar skulu eiga fulltrúa mann í stjórn sambandsins. Stjórnin skiptir með sér verkum og mynda formaður, varaformaður, gjaldkeri og ritari framkvæmdastjórn.
Stjórn ÍSL skal koma saman eigi sjaldnar en 6 sinnum á millli þinga. Til stjórnarfunda skal boðað skriflega af formanni með viku fyrirvara. Formaður boðar einnig til funda framkvæmdastjórnar sem skulu haldnir eins oft og framkvæmdastjórnarmenn telja þörf á. Óski 3 eða fleiri stjórnarmenn eftir fundi stjórnar skal til hans boðað eigi síðar en 10 dögum eftir að ósk þar að lútandi hefur verið fram borin. Stjórn ÍSL er heimilt að ráða launað starfsólk.
9. grein Starfssvið stjórnar ÍSL er: Að sjá til þess að ákvörðunum og ályktunum þings ÍSL sé framfylgt. Að sjá til þes að lög og reglugerðir sambandsins séu haldnar. Að taka ákvörðun um þátttöku í mótum erlendis. Að koma fram erlendis f.h. lögreglumanna á Íslandi á sviði íþrótta. Að taka ákvörðun um nefndir á vegum ÍSL og skipa í þær. Að ákveða staðsetningu landsmóta.
Starfssvið framkvæmdastjórnar er: Að framfylgja ákvörðunum stjórnar ÍSL Að skipuleggja daglegan rekstur ÍSL. Að vinna að fjáröflunum til að standa undir kostnaði við reksturs sambandsins og taka ákvörðun um fjáröflunarleiðir. Að taka ákvörðun um minniháttar fjárhagslegar skuldbindingar. Að semja um laun starfsmanna. Að skipuleggja keppnisferðir ÍSL erlendis og sjá um undirbúning keppenda.
10. grein Öll framkvæmd móta á vegum sambandsins skal miðast við að þar gildi reglur sérsambanda ÍSÍ svo og reglur ÍSL.
11. grein Tillögur um að leggja ÍSL niður má aðeins taka fyrir á reglulegu landsambandsþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu þarf minnst ¾ hluta greiddra atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þingskýrslunni og tillagan síðan látin ganga til næsta reglulegs þings. Með fulltrúarkjöri sínu til þess þings taka aðilar afstöðu til tillögunnar. Verði tillagan samþykkt aftur með ¾ hlutum greiddra atkvæða er það fullgild ákvörðun um að leggja sambandið niður. Ákveður það þing hvernig ráðstafa skal eignum ÍSL en þeim má aðeins verja til eflingar íþrótta meðal lögreglumanna.
12. grein Lög þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt á stofnþingi ÍSL 3. maí 1982 ásamt breytingum gerðum á þingum ÍSL 1984, 1988, 1994, 2004 og 2006.