Covid 19 og íþróttir lögreglumanna

Eins og öllum er ljóst þá hefur Covid 19 faraldurinn haft gríðarleg áhrif á allt íþróttastarf sem og allt annað í heiminum. Innanlands hefur þetta haft þau áhrif að aðeins hefur verið hægt að halda landsmót í golfi og holukeppni ÍSL í golfi á þessu og síðasta ári. Það er enn smuga, þegar þetta er ritað um miðjan ágúst, að við getum haldið Öldungamót í innanhússknattspyrnu 2021. Okkur tókst að halda þing ÍSL í mars s.l. en það átti að fara fram í október 2020.

Norðurlandamót féllu niður á síðasta ári en þá áttu að fara fram NPC í skotfimi á Íslandi, ratleikni í Svíþjóð og blaki í Noregi. Á þessu ári 2021 áttu að fara fram norðurlandamót í handknattleik í Svíþjóð og golfi í Noregi.  Það var síðan ákveðið að færa skotmótið og ratleiknina til ársins 2021 og mót ársins 2021 til 2022. Nú er ljóst í dag að skotmótið fer ekki fram þetta árið og það gæti brugið til beggja vona með ratleiknina í Svíþjóð. Það er enn á áætlun í október. Þing Norræna sambandins, NPSA, átti að fara fram á Íslandi í maí en því var frestað til haustsins. Alls óvíst er hvort það getur farið fram með mætingu á þingstað en þá verðum við að halda það á Teams eins og alla þá fundi sem við höfum haldið á árinu.

Lítið varð af evrópumótum á síðasta ári og t.d. varð ekkert af EPC í körfuknattleik kvenna sem við ætluðum að taka þátt í, í fyrsta skipti. Það mót hefur verið alveg slegið af og fer næsta mót fram 2024. Ætlunin er að halda tvö EPC mót í haust, sund í Rússlandi og víðavangshlaup í Danmörku. Á næsta ári eru síðan plönuð 6 mót þar á meðal körfubolti karla. Við höfum tilkynnt um þátttöku þar.

Tíminn leiðir síðan í ljós hvenær íþróttastarf verður orðið eðlilegt að nýju.

Óskar Bjartmarz
formaður ÍSL

Scroll to Top