EPC í körfuknattleik 2022, undirbúningur fyrir undankeppni

 

Þegar evrópska lögregluíþróttasambandið, USPE, auglýsti eftir þátttöku í evrópumótið í körfuknattleik karla í júní 2021, ákvað ÍSL að tilkynna þátttöku. Snögg könnun á þeim tíma sýndi að talsverð endurnýjun hefði orðið á körfuboltamönnum innan lögreglurnnar frá því árið 2017. Þá kepptum við í úrslitum sem fram fóru í Grikklandi. Við lentum í 7 sæti á mótinu en raunhæft markmið þá var 5 sæti. Af hverju ekki ofar, jú það var vegna þess að við vorum dregnir í riðil með bæði Grikkjum og Litháum sem eru ósigraðar þjóðir í körfuknattleik karla, nema innbyrgðis, og því var 3ja sæti í riðlinum það raunhæfa. Við enduðum reyndar í fjórða og neðsta sæti í riðlinum. Því var nokkuð vitað þegar við tilkynntum um þátttöku að við þyrftum að fara í undankeppni. Við drógumst í riðil með Ungverjalandi og Mónakó og skildi leikið í Ungverjalandi. Undirritaður spáði því strax að Mónakó myndi draga þátttöku sína til baka sem og gerðist. Tækninefnd USPE hafði gefið út að ef einhver þjóð dytti út þannig að 2 þjóðir yrðu eftir þá skyldu fara fram 2 leikir á milli þjóanna. Betri árangur úr þessum tveimur leikjum gæfi síðan þátttökurétt í úrslitum í Frakklandi í júní. USPE gaf út að undanriðlarnir, sem urðu 3, skyldu leiknir í mars.

Við hófum undirbúning í byrjun nóvember undir stjórn Jóns Þórs Eyþórssonar þjálfara og lögreglumanns. Það var síðan 25. nóvember að USPE ákvað vegna Covid19 ástandsins í Evrópu að fresta undanriðlunum og að þeir skyldu fara fram í apríl. Þá gerðum við hlé á undirbúningi. Þann 4. desember kom síðan tilkynning frá USPE að Ungverjar gætu ekki frestað undanriðlinum vegna þess hversu langt þeir voru komnir í undirbúningi sínum. USPE ákvað þá að halda sig við upphaflegar dagsetningar með okkar riðil. Undirbúningur í gang aftur og aftur pantað flug sem þá hafði hækkað og flugáætlun orðin óhagstæðari. Dagsetningar voru í upphafi þannig að við gátum ekki tekið beint flug til Budapest. Aftur var að gera hlé á undirbúningnum vegna Covid19 ástandsins hér á landi í desember/janúar. Á þessum undirbúningstíma frá því í byrjun nóvember og fram að ferðinni 14. febrúar náðum við um 8 æfingum og einum æfingaleik. Hann fór fram 9. febrúar í Keflavík við B lið heimamanna, en í því liði eru nokkir ungir leikmenn sem leika með aðalalliðinu. Þar voru 9 í hópnum okkar sem gátu mætt í leikinn. Við unnum leikinn 78 – 70. Eftir leikinn datt Unnar Már Bjarnason út hópnum vegna Covid og undirritaður sem átti að fara með sem fararstjóri datt út 2 dögum fyrir brottför einnig vegna Covid. Með góðri aðstoð og velvild yfirmanna í lögreglunni tókst að fá nýja aðila inn í staðinn þó fyrirvarinn væri nær enginn. Ekki má heldur gleyma Silju hjá Vitaferðum sem var nær allan sunnudaginn, daginn fyrir brottför að ná fram nafnabreytingum á 2 farseðlum sem tókst á sunnudagskvöld. Við æfðum hjá KR í Frostaskjóli og þá fengum við inni í tíma hjá ÍFL Reykjavík í Álftamýrinni. Kunnum við ÍFL Reykjavík þakkir fyrir.

 

Óskar Bjartmarz
formaður ÍSL

 

Scroll to Top