Þing Evrópska lögregluíþróttasambandsins, USPE, fór fram laugardaginn 26. nóvember 2022 í Vínarborg í Austurríki. Fulltrúar ÍSL á þinginu voru Óskar Bjartmarz formaður og Jóhann Karl Þórisson varaformaður. Þá var Jón S. Ólason gjaldkeri, einnig með í för en hann var í framboði í hlutverk skoðunarmanns reikninga sambandsins. Guðmundur St. Sigmundsson var einnig á þinginu á vegum USPE en hann var að skila af sér hlutverki skoðunarmanns reikninga USPE. ÍSL lagði fram tillögur til þingsins til breytinga á lögum USPE. Annars vegar að skoðunarmenn reikninga USPE þyrftu að uppfylla sömu kröfur og þeir sem gæfu kost á sér í formennsku, stjórn og/eða tækninefnd þ.e. að vera starfandi lögreglumaður við kosningu, nema ákveðið yrði að skoðunarmenn reikninga ættu að vera viðurkenndir endurskoðendur. Hitt var að skoðunarmenn reikninga gætu ekki komið frá sama landi og gjaldkeri sambandsins. Hvorutveggja skynsamlegt og ætti í raun ekki að þurfa að setja í lög sambandsins. Tillögurnar hins vegar komnar til að af því að fráfarandi gjaldkeri Harry Brüngger frá Sviss, sem kominn er á eftirlaun fyrir nokkrum árum ætlaði að gefa kost á sér í hlutverk skoðunarmanns ársreikninga USPE. Það lá einnig fyrir að gjaldkerinn sem tæki við kæmi frá Sviss. Þegar á þingið var komið var ljóst að forysta sambandsins barðist hatramlega gegn þessum tillögum þó svo að það var naumur meirihluti stjórnar sem samþykkti að leggjast gegn tillögunni. Fráfarandi formaður sem stjórnaði þinginu tók að sér að tala gegn tillögum okkar og rök hans voru ekki mikil. Hérna var aðeins á ferðinni að gjaldkerinn fráfarandi vildi ekki missa alveg tengslin við USPE og því var fundið upp á því að hann gæti gefið kost á sér. Skemmst er frá því að segja að formaðurinn í sinni umræðu og stjórn þingsins gerði afar alvarleg afglöp, meðvitað, t.d þegar kom að því að greiða atkvæði um tillögurnar þá snerist atkvæðagreiðslan um að þeir sem segðu já voru að samþykkja afstöðu meirihluta stjórnar gegn tillögunum, þar að fella tillögur okkar. Atkvæðagreiðslan fór fram í tveimur hlutuum enda um tvær tillögur að ræða. Báðar tillögurnar fengu ekki brautargengi en tillagan um að skoðunarmenn gætu ekki komið frá sama landi og galdkerinn fékk fleiri atkvæði en hin. Í hléi að lokinni atkvæðagreiðslu varð undirritaður alveg brjálaður við formanninn vegna framkomu hans og fyrirkomulags atkvæðagreiðslunnar. Hann viðurkenndi mistök og að loknu hléi viðurkenndi hann mistökin fyrir þinginu og atkvæðagreiðslan var endurtekin en þá gerðist það að þau atkvæði sem ekki skiluðu sér í fyrri atkvæðagreiðslunum skiluðu sér í seinna skiptið og fóru flest gegn tillögunum. Þess má geta að franski formaðurinn, sem höfðu skilað auðu, kom að tali við undirritaðan í hlénu og sagði að frakkar styddu okkar tillögu en vildu helst að skoðunarmenn reikninga gætu ekki verið lögreglumenn. Í seinna skiptið greiddu þeir atkvæði með tillögum okkar. Í framboði í hlutverk skoðurmanna ársreikninga voru 3 aðilar, fyrr nefndur Harry fráfarandi gjaldkeri, Olaf Stenslet, frá Noregi, sem var búinn að vera skoðunarmaður með Guðmundi St. Sigmundssyni, og Jón S. Ólason. Olaf fékk flest atkvæði og Harry næst flest. Jón S. sat því eftir.
Á þinginu fór fram kosing formann en fráfarandi formaður Luc Smeyers frá Belgíu, sem hafði verið formaður í 14 ár, gat ekki gefið kost á sér áfram. Kosið var á milli Georgios Tzatzakis frá Grikklandi og Matt Jukes frá Bretlandi. Grikkinn hafði unnið heimavinnuna en hann var búinn að halda Teams fundi með forystufólki flestra aðildarþjóða USPE í aðdraganda þingsins. Niðurstaðan varð sú að Georgios sigraði nokkuð örugglega. Það á síðan eftir að koma í ljós hvernig hann mun reynast, hann býður af sér góðan þokka þannig að við skulum gefa honum tækifæri til að sanna sig.
Óskar Bjartmarz
fornaður ÍSL