Landsmót ÍSL í CF Throwdown 2022

Þann 19. nóvember 2022 var Landsmót lögreglumanna í CF Throwdown haldið, en mótið fór fram í húsakynnum Crossfit Sport í Sporthúsinu í Kópavogi. Um var að ræða parakeppni þar sem tveir einstaklingar af sama kyni mynduðu lið og því keppt í karla- og kvennaflokki. Sigurvegarar úr hverjum flokki unnu sér inn keppnisrétt á Norðurlandamóti í CF, Nordic Police Championship in functional fitness, fyrir hönd ÍSL. Þá áttu einnig frambærilegir keppendur í hvorum flokknum fyrir sig möguleika á að keppa á umræddu móti.

Auglýst var eftir keppendum og skráðu fjögur kvennalið sig til leik. Þetta voru þær Anna Kara Eiríksdóttir og Þóra Björk Þorgeirsdóttir, Jóhanna Júlía Júlíusdóttir og Nanna Lind Stefánsdóttir, Ragnhildur Oddný Loftsdóttir og Hildur Hörn Orradóttir og Elva Rún Óskarsdóttir og Theódóra Valtýsdóttir. Það er skemmst frá því að segja að karlarnir áttu vægast sagt slaka skráningu en aðeins tvö lið skráðu sig til leiks. Annars vegar Hafsteinn Gunnlaugsson og Finnur Kristjánsson og hins vegar Björn Jóhannsson og Kristján Arnar Jóhannsson. Til að gera stutta sögu styttri þurfti Björn og Kristján að draga sig úr keppni á keppnisdag vegna meiðsla svo ekki var keppt í karlaflokki vegna dræmrar skráningar. Ástæða þess hvað olli því er mögulegt ritgerðarefni fyrir verandi og verðandi háskólanemendur í lögreglufræðum í BA-ritgerð sinni en skráningin olli í það minnsta miklum vonbrigðum. Því var ljóst, áður en mótið hófst, að Hafsteinn og Finnur væru búnir að vinna sér inn keppnisrétt á Nordic Police Championship in functional fitness. Vitað er með vissu að þeir báðir hefðu viljað fá einhverja samkeppni.

En aftur að keppninni hérlendis. Til leiks mættu fjögur lið í kvennaflokki eins og áður segir, átta konur, sem er að bestu vitund minni mesta skráning kvenna á Landsmót lögreglumanna í CF og því ljóst að framtíðin er björt í næstu keppnum á komandi árum. Fyrstu tvær keppnisgreinar mótsins lágu fyrir, en þær voru í heildina þrjár, og fyrir hverja þeirra gat hvert lið unnið sér inn 1 til 4 stig.

Fyrsta keppnisgreinin var 2 rep max back squat þar sem liðin fengu 12 mínútur til að framkvæma tvær bakhnébeygjur í röð með sem mestri þyngd og voru samanlagðar þyngstu lyftur liðsins reiknaðar. Sigurvegarar þeirrar greinar voru þær Anna Kara, með 120 kg, og Þóra Björk, með 115 kg, með samanlagða þyngd upp á 235 kg. Í öðru sæti voru Ragnhildur Oddný, með 110 kg, og Hildur Hörn, með 120 kg, með heildarþyngdina 230 kg.

Eftir fyrstu keppnisgreinina þurftu þær Elva Rún og Theódóra að hætta keppni vegna meiðsla hjá öðrum liðsmanninum.

Næst áttu keppendur að framkvæma æfingu þar sem keppendur fengu 2 mínútur til þess að ná sem flestum kaloríum á róðravél þar sem leyfðar voru frjálsar skiptingar, eftir að hafa framkvæmt 15 wall ball samtímis þar sem keppendur fara í hnébeygju með 6 kg bolta og kasta honum upp í loft á vegg fyrir ofan ákveðna hæð. Keppendur höfðu alls 8 mínútur og því var æfingin framkvæmd 4 sinnum. Úrslit þessarar keppnisgreinar réðst því af því hvaða lið gat náð sem mestum kaloríum á róðravélinni. Í fyrsta sæti voru Jóhanna Júlía og Nanna Lind með alls 120 kaloríur en í öðru sæti voru Anna Kara og Þóra Björk með alls 101 kaloríur.

Keppendur fengu ekki að vita fyrr en daginn fyrir keppnisdag hver þriðja og síðasta æfing dagsins yrði en sú hefð hefur tíðkast síðastliðin mót. Æfingin fólst í magn æfinga sem keppendur áttu að framkvæma innan 15 mínútna, svokallaður “chipper”. Í upphafi áttu keppendur að hjóla á “Assault bike” og ná þar 55 kaloríum en það voru leyfðar frjálsar skiptingar innan liðsins.  Næst tók við 30 endurtekningar af upphífingum sem og hoppum yfir 50 cm kassa en í umræddum æfingum voru einnig leyfðar frjálsar skiptingar innan liðsins. Því næst áttu liðin að framkvæma jafn margar endurtekningar af réttarstöðulyftum, með 42,5 kg, sem og axlapressum, með sömu þyngd, þar sem keppendur áttu að framkvæma æfingarnar samtímis. Var áðurnefndur æfingarhringur með 30 endurtekningum framkvæmdur 2 sinnum til viðbótar en endurtekingunum fækkaði eftir hverja umferð niður í 20 og að lokum í 10 endurtekningar. Að því loknu þurftu keppendur að framkvæma samtímis “lateral burpees” yfir stöng. Lengst náðu þær Jóhanna Júlía og Nanna Lind með alls 295 endurtekningar en í öðru sæti voru Anna Kara og Þóra með alls 285 endurtekningar.

Keppnin var virkilega hörð þetta árið og mjótt var á munum í öllum greinum. Nokkuð ljóst var að munur á heildarstigum liðana var ekki mikill en það munaði einungis einu stigi á 1. og 2. sætinu.

Í 3. sæti lentu þær Ragnhildur Oddný og Hildur Hörn með samtals 7 stig. Í öðru sæti voru Jóhanna Júlía og Nanna Lind með 9 stig. Í 1. sæti voru því Anna Kara og Þóra Björk með alls 10 stig og unnu þær því hinn eftirsótta verðlaunabikar Landsmóts lögreglumanna í CF. Allir keppendur fengu verðlaunapening og vörur frá Hreysti en sigurliðið fékk að auki inneignarnótu frá Sportvörum sem og keppnisrétt á Nordic Police Championship in functional fitness.

Mótshaldarar, þ.e.a.s. stjórnarmenn ÍSL, völdu þær Jóhönnu Júlíu og Hildi Hörn þá keppendur sem þóttu sýna frambærilega frammistöðu og unnu þær sér því einnig keppnisrétt á Nordic Police Championship in functional fitness fyrir hönd ÍSL.

Eins og fram hefur komið var mótið í ár mjög jafnt og virkilega skemmtilegt áhorfs. Innan lögreglunnar eru konur sem sannarlega hafa bæði styrk og þol og verður spennandi að sjá keppnir á næstu árum. Þess skal þó getið að einungis voru skráð lið frá tveimur embættum þ.e.a.s. LRH og LSS og er því skorað á lögreglumenn í embættum á landsbyggðinni að skrá sig á næsta mót. Þá eru karlar sérstaklega hvattir til þess að skrá sig en til er nóg af þeim sem segjast geta, en spurning hvort þeir mæti, því skráningin í ár var klárlega körlunum ekki til sóma. Gaman væri ef mótið myndi stækka og yrði það spennandi hugmynd að halda mótið utan höfuðborgarsvæðisins næst, þar sem nóg er til af flottum crossfit stöðvum hérlendis.

Finnur Kristjánsson

Scroll to Top