Evrópumót lögreglumanna í maraþoni, Eindhoven 2022

Evrópumót lögreglumanna í maraþoni var haldið í Eindhoven, Hollandi þann 9. október sl. Íþróttasamband lögreglumanna sendi tvo þátttakendur til mótsins, þau Katrínu Ýr Árnadóttir og Eirík Benedikt Ragnarsson.

Evrópumótið var haldið í samstarfi við Eindhoven maraþon, eða ASML Marathon Eindhoven, það 38. í röðinni, þar sem í boði voru nokkrar mismunandi vegalengdir og þátttakendur í allt rúmlega 20 þúsund, þar af um 2.500 í heilu maraþoni. Alls tóku 144 lögreglumenn þátt í maraþoninu, 102 karlar og 42 konur frá 22 Evrópulöndum.

Tvisvar sinnum áður hafa íslenskir lögreglumenn tekið þátt í Evrópumótum lögreglumanna í maraþoni, það var í Graz árið 2014, þar sem sex íslenskir lögreglumann tóku þátt  og í Dublin árið 2018 þar sem þrír lögreglumenn og einn löglærður fulltrúi tóku þátt.

Maraþonið í Eindhoven var 8. Evrópumót lögreglumanna í maraþoni en meginreglan er að mót í viðkomandi grein eru haldin á fjögurra ára fresti bæði á vegum Evrópusambandsins (USPE) og Norðurlandasambandsins (NPM). Fyrsta Norðurlandamót lögreglumanna í maraþoni var haldið í Reykjavík í ágúst 2015, í samstarfi við Reykjavíkurmaraþon, þar tók 31 lögreglumaður þátt í hlaupinu og annað Norðurlandamótið fór fram í Óðinsvé í lok september 2019, en þar tóku 38 lögreglumenn þátt, 23 karlar og 15 konur. Næsta Norðurlandamót lögreglumanna í maraþoni verður haldið í Eistlandi  þann 10. september á næsta ári, 2023.

Íslenskir lögreglumenn hafa því tekið þátt í fimm maraþon mótum á vegum ÍSL, þremur Evrópumótunum, í Graz 2014, Dublin 2018 og Eindhoven 2022 og tveimur Norðurlandamótunum, í Reykjavík 2015 og Óðinsvéum árið 2019.

Undirbúningur ÍSL fyrir maraþonið í Eindhoven hófst haustið 2021, með því að kannaður var áhugi á meðal lögreglumanna á að taka þátt í hlaupinu og um leið undirbúning fyrir maraþonið, því eins og menn vita fylgir maraþoni mikill undirbúningur. Fimmtán lögreglumenn lýstu áhuga sínum á að taka þátt í undirbúningi fyrir þetta hlaup en af þeim heltust margir úr lestinni af ýmsum ástæðum svo sem vegna meiðsla, anna í starfi og einhverjir hurfu til annarra starfa. Efnt var til úrtökumóta til að velja þátttakendur til mótsins, annars vegar var um að ræða vormaraþonið sem fram fór þann 23. apríl og hins vegar Stjörnuhlaupið sem fram fór þann 21. maí. Markmið ÍSL var að senda fjóra keppendur til mótsins, tvo karla og tvær konur. Fjórir mættu til úrtökumótanna það voru þau Birgir Már Vigfússon, Eiríkur Benedikt Ragnarsson, Gunnar Helgi Friðriksson og Katrín Ýr Árnadóttir. Þeir Birgir Már og Gunnar Helgi drógu sig síðan út úr verkefninu og þau Eiríkur Benedikt og Katrín Ýr tóku að lokum þátt í maraþoninu í Eindhoven.

Við undirbúning fyrir hlaupið nutu þátttakendur liðsinnis Friðleifs Friðleifssonar, sem er án efa einn af okkar allra fremstu hlaupurum og hlaupaþjálfurum.

Flogið var til Amsterdam föstudaginn 7. október sl. og síðan ferðast þaðan með lest til Eindhoven þar sem haldið var til á mjög góðu fjögurra stjörnu hóteli, Van der Valk Hotel Eindhoven, í útjaðri borgarinnar eða í um 4 km fjarlægð frá miðborginni þar sem maraþonið hófst og lauk. Mótsetning fór fram að morgni laugardagsins 8. október, í íþróttahúsi skammt frá hótelinu. Að mótsetningunni lokinni var haldin sýning á vegum mótshaldara á hinum ýmsu handtökuaðferðum og ýmis dæmi sett upp sem lögreglumenn þurfa að bregðast við í daglegum störfum þeirra, aðferðir sem kenndar eru við lögregluskólann í Eindhoven. Auk þess sýndu fíkniefnalögreglumenn tæki og tól til fíkniefnagerðar og framleiðslu fíkniefna.

Maraþonið hófst síðan sunnudagsmorguninn 9. október klukkan 10.  Lagt var af stað frá hótelinu um klukkan 8 um morguninn og þátttakendum ekið að lögreglustöð í miðborginni, Politiebureau, Eindhoven-Mathildelaan, þar sem þeir fengu góða aðstöðu en startið var beint utan við lögreglustöðina og markið rétt hjá eða í nokkur hundruð metra fjarlægð frá lögreglustöðinni. Aðstæður voru mjög góðar og veðrið nánast eins og best verður á kosið, logn, sólskin og um 5 til 6 stiga hiti í upphafi en fór hlýnandi er á leið og var reyndar orðið vel heitt í lok hlaupsins eða um 14 stiga hiti.

Hlaupið hjá okkar þátttakendum gekk mjög vel en smávægileg eymsl gerðu vart við sig eins og gengur þegar hlaupin er svona löng vegalengd, en maraþon er eins og flestir vita 42.195 metrar. Eins og fram hefur komið voru 102 karlar skráðir í lögreglu maraþonið en 93 þeirra kláruðu og af 42 skráðum konum, kláruðu 40 þeirra hlaupið.

Fyrstur í mark af öllum karlmönnum sem þátt tóku í heila Eindhoven  maraþoninu, eða um 2000, var Kenya maðurinn Pius Karanja á tímanum 2:06:55 og fyrst af þeim 500 konum sem hlupu heilt þon var Paskalia Chepkogei, einnig frá Kenya, á tímanum 2:22:46.

Austurríkismaðurinn Mario Bauernfeind vann lögreglumaraþonið á tímanum 2:15:33 og fyrsta lögreglukonan var Fabienne Vonlanten frá Sviss á tímanum 2:41:31.

Tímar íslensku þátttakendanna í Eindhoven voru:

Katrín Ýr                                 3:24:24
Eiríkur Benedikt                   4:01:43

Katrín Ýr var í 26. sæti af þeim 40 lögreglukonum sem luku keppni og nr. 78 af öllum þeim 500 konum sem luku keppninni. Eiríkur var nr. 93 af lögreglumönnunum og nr. 1.475 af þeim 2.000 körlum sem luku heilu maraþoni.

Fyrir hönd ÍSL, þakka ég þeim Katrínu Ýr og Eiríki Benedikt fyrir þátttökuna og Friðleifi Friðleifssyni fyrir aðstoðina við undirbúninginn.

Hálfdán Daðason
liðsstjóri og stjórnarmaður ÍSL

Scroll to Top