Norðurlandamót lögreglumanna í golfi 2022

Fór fram í Stavanger í Noregi 04. – 08. september 2022. Við vorum með keppendur bæði í karla- og kvennaflokki. Í karlaflokki fóru fram tvö úrtökumót og síðan var landsmót ÍSL þriðja mótið sem menn höfðu til að taka þátt í og koma til greina í karlaliðið. Besti árangur hjá 5 í tveimur af þremur mótum gaf sæti í liðinu. Liðsstjóri hafði síðan á sinni könnu að velja 6 manninn. Með kvennahópinn var staðið öðru vísi að. Þar gilti að velja þær sem við vissum að væru spila golf talsvert áður en kom að landamóti. Þegar upp var staðið voru þeir 5 sem voru með bestan árangur í þeim þrem mótum sem áður eru nefnd, Birgir Már Vigfússon RLS, Friðrik K. Jónsson lögreglunni á Suðurnesjum, Páll Theodórsson LRH, Trausti Fr. Jónsson lögreglunni á Vesturlandi og Hilmar Th. Björgvinsson lögreglunni á Suðurnesjum. Hilmar varð síðan fyrir því að meiðast rétt fyrir mót og varð því að draga sig út úr hópnum. Í staðinn kom næsti maður inn Hinrik Konráðsson lögreglunni á Vesturlandi. Liðsstjórinn Jóhann Karl Þórisson valdi síðan að sjálfsögðu íslandsmeistara lögreglumann í golfi Sigurbjörn Þorgeirsson í liðið. Kvennaliðið var skipað eftirfarandi. Martha Óskarsdóttir RLS, Guðlaug María Óskarsdóttir lögreglunni á norðurlandi eystra og Hekla Ingunn Daðadóttir nemi við MSL. Jóhann Karl Þórisson var liðsstjóri og Óskar Bjartmarz fararstjóri. Lagt var af stað eldsnemma morguns þann 04. september með Play í beinu flugi til Stavanger. Gistum á góðu hóteli, Clarion, nálægt miðbænum og fór vel um alla.

Mótið fór fram á golfvelli Stavanger Golf Club, par vallarins 71, flestar brautir á milli trjábelta og grínin ekki stór. Greinilega erfiður völlur. Í karlaflokki voru titlar að verja, lið ÍSL vann sveitakeppnina og Sigurbjörn varð noðurlandameistari á síðasta móti árið 2017 á Íslandi. Strax við komu var farinn æfingahringur sem gekk misjafnlega hjá okkar fólki. Þar sem við komum degi fyrr en gert var ráð fyrir, tókum beint flug daginn áður til að sleppa við tvö flug á skipulagða komudeginum, náðum við að taka tvo æfingahringi fyrir mótið. Það voru 29 keppendur í karlaflokki og 12 í kvennaflokki. Allar aðildarþjóðir NPSA mættu með keppendur. Finnar mættu með keppendur í karlaflokki og frá Eistlandi kom ein kona.

Okkar fólk byrjaði ekki vel, eftir fyrri daginn var Birgir með besta skorið hjá okkur eða 75 högg í 5. – 6. sæti og Sigurbjörn í 9.  – 10. sæti með 81 högg. Betur gekk í kvennaflokki en þar var Hekla í þriðja sæti á 84 höggum. Guðlaug og Martha í 9. og 11. sæti á 100 og 118 höggum. Þegar upp var staðið varð Kristian Nilson frá Svíþjóð norðurlandameistari í karlaflokki á samtals 144 höggum. Næstur varð Johan Molander frá Svíþjóð á 149 höggum. Í 3. – 4. sæti urðu síðan Fredrik Soltvedt og Mads Møller Nielsen Danmörku á 150 höggum. Birgir Már varð í 7. sæti á 156 höggum, Sigurbjörn í 8. – 9. sæti á 157 höggum. Páll varð í 22. sæti á 169 höggum, Friðrik Kr. í 23. sæti á 170 höggum. Hinrik Konráðsson í 27. sæti á 183 höggum og Trausti Freyr Jónsson í 28. sæti á 185 höggum. Í kvennaflokki varð Hekla í 3. sæti á 172 höggum. Guðlaug María í 10. sæti á 203 höggum og Martha í 11. sæti á 233 höggum. Í sveitakeppninni sigruðu svíar á 601 höggi, danir urðu í 2. sæti á 617 höggum, norðmenn í 3. sæti á 638 höggum, Ísland í 4. sæti á 652 höggum og finnar ráku lestina á 660 höggum. Svíar sigruðu einnig sveitakeppnina í kvennaflokki en þar voru þrjár sveitir. Þær sænsku léku á 531 höggi, þær dönsku á 575 höggum í 2. sæti og okkar sveit varð í 3. sæti á 608 höggum.

Að loknu móti má segja að árangurinn í kvennaflokki var eftir því sem búast mátti við en í karlaflokki var árangurinn því miður mjög dapur og okkar bestu menn að leika talsvert frá sinni getu. Á næsta móti sem fram á að fara í Danmörku 2025, er ljóst að gera þarf betur og þar verður að vera önnur nálgun á mótið en núna.

Óskar Bjartmarz
formaður ÍSL

Scroll to Top