Norðurlandamót lögreglumanna í Functional fitness 2023

Í maí 2023 fór fram fyrsta Norðurlandamót lögreglumanna í Functional fitness.   Lengi hafði verið reynt að koma þessari grein inn í norðurlandasamstarfið.  Var því tekin ákvörðun á þingi Íþróttasambanda norðurlandanna að halda eitt mót til reynslu og meta síðan framhaldið.

Mótið fór fram í Stokkhólmi en þangað sendu öll aðildarfélögin lið og einstaklinga til keppni í fjörugu og sterku móti.  Voru því auk Íslands keppendur frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Eistlandi skráðir til leiks.

Aðstaðan í Stokkhólmi var til mikillar fyrirmyndar en keppt var í aðstöðu „Crossfit Nordic“.

ÍSL sendi keppendur til leiks í öllum flokkum en keppt var í karla, kvenna og liðaflokki. Voru keppendur valdir til leiks m.a. eftir árangri í Landsmóti ÍSL 2022.

Fyrir okkar hönd tóku þeir Finnur Freyr Kristjánsson (LRH) og Hafsteinn Gunnlaugsson (LRH) þátt í karlaflokki og Anna Kara Eiríksdóttir (LRH) keppti í kvennaflokki.  Þá mynduðu þau Björn Jóhannsson (LRH) og Jóhanna Júlía Júlíusdóttir (LSS) annað íslenska liðið í liðakeppninni en þau Þóra Björk Þorgeirsdóttir (LRH) og Kristján Arnar Jóhannsson (LSS) hitt.  Þá hafði verið ráðgert að Hildur Hörn Orradóttir (LRH) myndi keppa í mótinu en hún meiddist og gat því ekki tekið þátt fór hún engu að síður með til mótsins sem aðstoðarmaður keppenda.   Óskar Bjartmarz var fararstjóri og undirritaður, Jón Gunnar Sigurgeirsosn, liðsstjóri.

Margir gríðarlega öflugir keppendur mættu til leiks í öllum flokkum.  Höfðu margir af keppendunum tekið þátt í alþjóðlegum Crossfit mótum og bjuggu því yfir mikilli reynslu er kemur að mótum sem þessum.   Reynsla kemur sér sérstaklega vel þegar kemur að því að undirbúa sig undir hverja grein fyrir sig þar sem stigasöfnun raðar keppendum í sæti og getur skipt miklu máli að spara orkuna á réttum stöðum.

Functional fitness er ört stækkandi íþróttagrein og í raun risa keppnisgrein í Svíþjóð og víðar.   Íslendingar þekkja Crossfit nokkuð vel en örlítill munur er þó á þessum tveimur greinum.   Helsti munurinn má segja að sé sá að í keppnum Functional fitness er fyrirsjáanleikinn mikill.  Fyrir mót eru allar keppnisgreinar kynntar fyrir keppendum og þannig kemur ekkert á óvart á keppnisstað og keppendur hafa tækifæri til að undirbúa sig fyrir allar greinarnar.      M.a. er vinna í gangi við að koma greininni inn á Ólympíuleikana.

Keppni fór fram dagana 6. og 7. maí.  Keppt var í þremur greinum hvorn dag þannig að vel reyndi á keppendur bæði líkamlega og ekki síður andlega.

Fyrsta greinin var þolgrein og samanstóð af útihlaupi og róðri.   Hlaupnir voru 1.6 km og síðan róið 2000 metra áður en farin var önnur umferð strax í kjölfarið.    Í einstaklingsflokki kláruðu keppendur alla æfinguna sjálfir en í liðakeppni skiptu keppendur á sig sitthvorri hlaupaleiðinni en gátu skipt eins og þau vildu í róðrinum, sem lengdur hafði verið í 3000 metra.

Keppendur sýndu strax í upphafi að hart yrði barist í öllum flokkum.   Varð fljótt ljóst að Hafsteinn Gunnlaugsson var einn af sigurstranglegustu keppendum mótsins.

Eftir stutta hvíld milli greina hófst önnur umferð þar sem keppendur kepptu í grein sem sett hafði verið saman til að vega og meta styrk og hæfni þeirra.   Snérist hún um að ná sem mestri þyngd í löglegri lyftu í „snatch“,  „Clean and jerk“ og síðan uppýfingu með þyngingu.    Höfðu keppendur fimm mínútur til að framkvæma þetta.

Þriðja greinin og sú síðasta á fyrri keppnisdegi snérist um „bodyweight“  eða æfingar með líkamsþyngd.

Skemmst er frá því að segja að af loknum fyrri keppnisdegi stóð Hafsteinn vel að vígi en hann leiddi keppni í karlaflokki með tveimur stigum.   Finnur sat í 15.sæti í sama flokki.  Í kvennaflokki var Anna Kara í 8.sæti að loknum degi og íslensku liðin sátu síðan í 8. og 9.sæti í liðakeppninni.

Eftir flottan fyrri dag mættu keppendur snemma til leiks að morgni sunnudags.   Fyrsta æfing dagsins reyndist íslensku keppendunum gríðarlega erfið, svo ekki sé minnst á meinta „heimadómgæslu“ en ítrekað fékk Hafsteinn dæmt „no-rep“ og þurfti því að endurtaka oft æfinguna og eyddi þannig dýrmætri orku.   Færðist hann að lokinni æfingunni niður í fjórða sæti.  Eftir samtal við yfirdómara mótsins viðurkennd hann að dómari hefði gert mistök amk í einhverjum af þessum tilfellum en skaðinn var skeður og gríðarleg orka farin í súginn.    Anna Kara gerði best okkar keppenda í þessari þraut og vann sig upp um heil tvö sæti.

Greinin var kölluð „skill“ og snérist m.a. um að ganga á höndum og framkvæma síðan æfingu í framhaldinu.

Fimmta greinin var kölluð „Mixed modality“   en þar þurftu keppendur að fara þrjár umferðir í gegnum æfinguna.  Róður, Chest to bar, 8 slamball clean og svo ganga með slamball.

Keppni lauk síðan með krefjandi æfingum sem kallaðar voru „power“.   Þurftu keppendur að fara í gegnum langa æfingu einskonar tímaþraut.

Ljóst var að í karlaflokki og kvennaflokki myndu verðlaunasætin skiptast á þá sem fyrstir kæmu í mark,   svo jöfn var keppnin fram að því.

Mesta spennan fyrir lokaþrautina hvað okkur Íslendinga varðar var í karlaflokki þar sem Hafsteinn átti enn möguleika á verðlaunasæti.  Fóru leikar hinsvegar þannig að Hafsteinn endaði keppni í fjórða sæti eftir harða báráttu við keppendurna sem enduðu í fyrstu þremur sætunum.

Anna Kara átti flottan seinni dag og hélt sér í efri hópi keppenda og skilaði 6.sætinu í hús.    Íslensku liðin tvö enduðu síðan keppni í 8. og 9.sæti.

Heilt yfir var mótið glæsilegt í framkvæmd og eiga skipuleggjendur mikið hrós skilið fyrir mótshaldið og utanumhaldið.  Aðstaðan eins og best verður á kosið – kannski fyrir utan aðstöðu fyrir áhorfendur.

Það var sannarlega mat keppenda, þjálfara og fararstjóra að þessi mót væru komin til að vera.   Það kemur því í hlut þings Íþróttasambanda norðurlandanna að ákveða með hvaða hætti og hversu reglulega opinberu mótin fari fram.   Reglan í öðrum greinum er sú að keppt sé á fjögurra ára fresti.

Fyrir áhugasama er hægt að nálgast öll úrslit mótsins og kynna sér æfingarnar betur á vefsíðunni

https://competitioncorner.net/events/8969/

Fh ÍSL

Jón Gunnar Sigurgeirsson
liðsstjóri og stjórnarmaður ÍSL

Scroll to Top