EPC í körfuknattleik í Frakklandi 2022

Evrópumót lögreglumanna, EPC, í körfuknattleik fór fram í Limoges í Frakklandi í lok júní. Ólafur Örvar, aðstoðarþjálfari hélt dagbók sem birt var á Karfan.is. Hér að neðan má sjá umræddar færslur sem Óli ritaði með breytingum og viðbótum frá Óskari Bjartmarz.

Lið ÍSL var skipað lögreglumönnum frá 7 embættum. Atli Barðason, Suðurnesjum. Andrés Kristleifsson, Arnar G. Skúlason, Magnús I Hjálmarsson, Níels P. Dungal og Unnar Þ. Bjarnason frá LRH. Snorri Þorvaldsson frá Suðurlandi. Hannes I. Másson frá Norðurlandi vestra, Arnar S. Bjarnason frá Vesturlandi. Egill Egilsson, Magni Hafsteinsson og Magnús Pálsson frá RLS. Þjálfarar eru Jón Þór Eyþórsson,  RLS og Ólafur Örvar Ólafsson, Suðurnesjum. Liðsstjórar í ferðinni voru Jón Gunnar Sigurgeirsson, LRH, og Emil Árnason, Suðurnesjum. Fararstjóri var Óskar Bjartmarz formaður ÍSL.

  1. 06. 2022 var haldið í hann með flugi frá Play beint til Parísar, Charles de Gaulle flugvallar. Þaðan voru teknir leigubílar á Austerlitz lestarstöðina í París en þaðan var 3,5 klst. lestarferð til Limoges. Á lestarstöðinni þar tók á móti okkur franskur lögreglumaður, Vincent Barbeau, sem átti eftir að vera okkar aðstoðarmaður meðan á mótinu stóð. Hann stóð sig mjög vel í alla staði.

Á mótinu var leikið í tveimur riðlum.

A riðill: Frakkland, Litháen, Ísland og Luxemborg.

B riðill: Þýskaland, Grikkland, Belgía og Ítalía.

21.06.2022 Alli leikirnir fóru fram í Palais des sports de Beaublanc.
Mótið hófst með opnunarhátíð þar sem lið voru boðin velkomin til leiks.

Fyrsti leikur var:
Frakkland – Litháen
Þar sem Litháar sigldu fram úr gestfjöfunum i þriðja leikhluta og unnu að lokum sigur.
Lokatölur 57-82

Næsti leikur var:
Ísland – Lúxemborg
Byrjunarliðið var eftirfarandi Magni sem var fyrirliði, Magnús P., Egill, Arnar S. og Andrés. Smá fiðringur var í mönnum fyrstu mínúturnar, stórsigur vannst á endanum þar sem Snorri úr Hveragerði var með 25 stig og Hannes frá Sauðárkrók með 12 stig, hittnin oft verið betri hjá Hannesi. Magnús I. reif niður fráköstin eins og Dennis Rodman gerði forðum daga, 14 stykki. Staðan í háfleik var 37 – 18 okkur í vil.
Lokatölur 77 – 36

Grikkland – Þýskaland
Þetta var hörku leikur þar sem tveimur grikkjum og einum þjóðverja var vísað út úr húsi. Leikmönnum var nokk sama þó verið væri að spila við starfsfélaga frá öðru landi, þetta var blóðug barátta þar sem tvö virkilega góð lið mættust. Að lokum fóru Þjóðverjar með sigur af hólmi. Þetta var fyrsti leikurinn sem Grikkir tapa í um 17 ár. Þetta var líka fyrsta EPC í körfuknattleik sem þjóðverjar taka þátt í.
Lokatölur 64-75

Belga og Ítala
Belgar kjöldrógu Ítalina.
Lokatölur 37-67

22.06.2022
Grikkland og Belga
Grikkirnir greinilega brjálaðir yfir því að hafa tapað fyrir Þjóðverjum daginn áður og slátruðu Belgum.
Lokatölur 101 – 54

Þýskaland – Ítalía
Aldrei spurning hvernig sá leikur færi, Ítalir einungis með 10 leikmenn sem er skammarlegt.
Lokatölur 100 – 38

Frakkland – Ísland
Byrjunarliðið það sama og í fyrsta leiknum Magni fyrirliði, Magnús P., Egill, Arnar S. og Andrés. Leikurinn var hnífjafn fyrstu mínúturnar, Frakkar pressuðu allan völlinn og við kærulausir á sama tíma. Egill Egilsson sá þó til þess að við vorum með smá forskot eftir fyrsta leikhluta. Þessi drengur er ekkert eðlilega hittinn fyrir utan þriggja stiga línuna. Hann setti niður 5 þrista í heildina og endaði með 23 stig. Eftir að hafa byggt upp gott forskot fyrir hálfleik þar sem Hannes  og Arnar S sáu að mestu leyti um stigaskorun þá var haldið inn í klefa. Arnar smellti þremur þristum í grillið á frökkunum með stuttu millibili. Arnar hélt að hann væri orðinn Steph Curry og reyndi við þann fjórða rétt kominn inn fyrir miðju en því miður þá dansaði boltinn á hringnum. Þjálfararnir ítrekuðu fyrir leikmönnum að halda áfram, ekki gefa frökkunum einhverja von í byrjun seinni hálfleiks. Þessir snillingar voru ekkert að hlusta á þjálfarana, frakkar skora fyrstu stigin í þriðja leikhluta og byrja að saxa á forskotið. Þá kom Magnús Superman Pálsson með sína grimmd og yfirvegun, setti nokkur stig og jarðaði frakkana í vörninni. Greinilegt að Haukur Helgi Pálsson fékk ekki alveg alla körfuboltahæfileikana frá foreldrum þeirra bræðra. Fór svo að tiltölulega öruggur sigur vannst, og sæti í undanúrslitum tryggt. Besti árangur Íslands hingað til var fimmta sæti og því búið að toppa það. Eins og fyrr segir var Egill með 23 stig, Hannes með 13 stig og hitti kappinn mun betur í þessum leik heldur en daginn áður og Arnar S. með 19 stig. Ísland setti niður 13 þrista í leiknum, góð hittni hjá okkar mönnum. Magni vildi greinilega vera með í þristaregninu og reyndi nokkrar tilraunir við þristinn en án árangurs. Magni greinilega hugsað “everybody is doing it” en því miður fyrir Magna þá voru það allir nema hann sem voru að hitta. Sigrinum og sæti í undanúrslitum fagnað að hætti Tindastóls á miðjum vellinum.
Staðan í hálfleik var 29 – 45 okkur í vil.
Lokatölur 66 – 81

23.06.2022
Litháen – Luxemborg
Litháar unnu örugglega.
Lokatölur 119 – 40

Þýskaland – Beglía
Þjóðverjar pakka Belgum saman og vinna B-riðilinn.
Lokatölur 94 – 51

Grikkland – Ítalía
Grikkir vinna Ítali sannfærandi og fara með Þjóðverjum í undanúrslit úr riðlinum.
Lokatölur 108 – 68

Frakkland – Luxemborg
Frakkar vinna Luxemborg auðveldlega.
Lokatölur 77 – 31

Litháen – Ísland
Byrjunarliðið sama og áður Magni fyrirliði, Magnús P., Egill, Arnar S., og Andrés. Þetta varð hörkuleikur. Eftir brösuga byrjun hjá okkar mönnum þar sem Litháar komust í 8-0 þá settu Snorri og Hannes í flug gírinn. Hannes var geggjaður í fyrri hálfleik og áttu Litháar ekki roð í strákinn. Ísland með fimm stiga forystu í hálfleik, en því miður var þriðji leikhluti ekki góður hjá okkar mönnum. Litháar komast yfir og Ísland byrjað að elta. Ísland skoraði bara 9 stig í leikhlutanum. 4 leikhluti var mun skárri en Litháar þó alltaf með forystuna. Magni var búinn að stilla miðið og setti tvo þrista með skömmu millibili, munurinn kominn í þrjú stig og “momentið” með Íslendingum. En það dugði skammt, fór svo að Litháar sigruðu leikinn með 10 stigum.  Staðan í hálfleik 47 – 52 okkur í vil.
Lokatölur 90 – 80
Litháen sigraði A riðilinn, Ísland í öðru sæti og fara í undanúrslitin.

Ítalía – Luxemborg leika um 7 sætið.
Frakkland – Belgía leika um 5 sætið.

Undanúrslit:
Ísland – Þýskaland
Litháen – Grikkland
Litháar eiga harma að hefna, töpuðu gegn Grikkjum í úrslitaleik á síðasta Evrópumóti.

25.06.2022
Ítalía – Luxemborg
Ítalir sigra auðveldlega og taka 7unda sætið.
Lokatölur 51 – 39

Frakkland – Belgía
Frakkar sigra Belga létt og taka 5ta sætið.
Lokatölur 82 – 53.

Litháen – Grikkland
Hörkuleikur á milli tveggja góðra liða. Litháar yfir í hálfleik, leiða með 7 stigum. Grikkirnir mæta trylltir í seinni hálfleikinn og keyra yfir Litháana. Fór svo að Grikkir sigruðu leikinn. Magnaður seinni hálfleikur hjá Grikkjum.
Lokatölur 73 – 87

Þýskaland – Ísland
Byrjunarliðið Magni fyrirliði, Magnús P., Egill, Andrés og Hannes. Mikil spenna í mönnum. Í liði Þjóðverja eru 3 leikmenn langt yfir tvo metrana og einn af þeim næstum þrír metrar á hæð. Sá gæi með leiki úr Euro-league á bakinu. Aðrir úr liðinu með leiki í efstu deildum Þýskalands. Þjóðverjar leiða með einu stigi eftir fyrsta leikhluta, 24-23. Ísland komið i villuvandræði strax, dómaratríóið ekki tilbúið að leyfa okkur að berja á þýska stálinu. Við þjálfarar vægast sagt ósáttir með dómarana en það þýðir lítið að væla yfir því. Þjóðverjar auka við forskot sitt í öðrum leikhluta og leiða í hálfleik. Magni a bekkinn, laskaður í hnénu gamli kallinn. Aðrir lykilmenn komnir í blússandi villuvandræði. Þjóðverjar nýta sér að Magni gat ekki spilað og keyra inn í teig hjá okkur trekk í trekk. Leiða eftir þrjá leikhluta 81-53. Sigra svo að lokum örugglega og og mæta Grikkjum í úrslitaleik.  Einn af ljósu punktunum í okkar leik var þegar Unnar skellti einum þristi ofaní og fagnaði eins og kóngur, kom muninum niður 29 stig. Níels Páll Dungal hafði það á orði eftir leik að hann myndi sko sýna þessum Þýskalandsböngsum where David bougt the beer á lokahófinu. Staðan í hálfleik 54-40 fyrir Þýskaland.
Lokatölur 104 – 63.

Eftir leik var grenjað í koddann í nokkrar mínútur en svo var byrjað að tjasla mönnum saman, Magnús P, Andrés, Níels og Magni allir eitthvað að skæla. Því miður fyrir okkur þá verður Magni ekki með líklega í leiknum um 3 sætið gegn Litháum.

Þýskaland og Grikkland voru saman í A riðli, þar sigraði Þýskaland eftir hörkuleik. Úrslitaleikurinn verður hörkurimma, Þýska stálið gegn Grísku guðunum

Leikið til úrslita um 1-4 sæti. Ísland með vægast sagt laskað lið etur kappi við Litháen.

Ísland – Litháen
Byrjunarliðið Magnús P. sem var fyrirliði, Egill, Arnar S. Andrés og Snorri. Ísland náði að halda i við spræka Litháa fyrsta leikhlutann þó að fyrirliðann, Magna hafi vantað í liðið sem og Atla sem voru komnir á sjúkralistann. Er líða tók á leikinn fóru Litháar að auka hraðan og juku forystuna verulega. Í hálfleik tilkynntu þeir Andrés og Egill að þeir væru “out”. Andrés með snúinn ökla og Egill með handónýta mjöðm. Níels Dungal einnig tæpur, með 50 ára gamlan kálfa sem var nánast búinn að fá nóg. Eins og það hafi ekki verið nóg þá voru Snorri og Magnús P. komnir í villuvandræði. Nú þurfti að leita langt á bekkinn. Arnar G. reynir sitt allra besta að laga stöðuna. Setur 10 stig á skömmum tíma og spilar fanta vörn. Skrínaði einn Litháan svo illilega að stúkan tók andköf, menn héldu að lungun í Litháanum hefðu fallið saman við áreksturinn, höggið bergmálaði í höllinni. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá sigruðu Litháar leikinn með miklum “naumindum”, Ísland varð að láta sér fjórða sætið duga að sinni. Stefnt er að sjálfsögðu að gera betur næst. Staðan í hálfleik var 30 – 49 Litháum í vil.
Lokatölur 59 – 109.

Úrslitaleikurinn:
Grikkland – Þýskaland
Allir áhorfendur á bandi Þjóðverja, allir búnir að fá upp í kok af Grikkjunum, bæði innan vallar sem utan. Því miður fór svo að Grikkirnir sigruðu úrslitaleikinn, sigra mótið í fjórða skiptið í röð. Það verður að gefa Grikkjunum það að þeir kunna þetta sport.
Lokatölur 71 – 65

Eftir að hafa sótt nánast hálft lið Íslands á sjúkrahúsið þá er íslenski hópurinn nú á heimleið eftir gott og skemmtilegt mót. Lest frá Limoges til Austerlitz lestarstöðvarinnar í París og þaðan með leigubílum á Charles de Gaulle flugvöll og svo heim með Icelandair.

Orðið á götunni segir að Magni og Magnús P. séu ákveðnir að taka þátt í allavega einu móti til viðbótar sem verður eftir 4 ár. Magni þá nánast áttræður og Magnús að nálgast sjötugt.                                                                                                                                              Áfram Ísland

Ólafur Örvar Ólafsson
þjálfari

Scroll to Top