Norðurlandamót lögreglumanna í maraþoni 2023

Þriðja norðurlandamót lögreglumanna, NPC, í maraþoni fór fram í Tallinn í Eistlandi           9. – 11. september 2023.
Mótið var hluti af Tallinn maraþoninu sem var sérstaklega veglegt í ár vegna þess að 2023 er ár hreyfingar (movement) í Eistlandi. Tallinn maraþonið svipar til Reykjavíkurmaraþons, þ.e. maraþon, hálfmaraþon, 10 km. hlaup, 5 km. hlaup, unglingahlaup 5 km. og 300 m. hlaup fyrir börnin.
Maraþonið var hlaupið á sunnudeginum en hin hlaupin fóru fram á laugardeginum. Um 1.900 manns hlupu maraþonið, veður var mjög gott, sólskin og logn. Brautin að mestu á flatneskju en tvisvar voru smá brekkur eða hækkun upp á 15 – 20 m. Samt var á annað hundrað þátttakendur sem ekki náðu að klára hlaupið, sumir hreinlega örmögnuðust.
Það voru 44 keppendur sem mættu á norðurlandamótið, 25 karlar og 19 konur, frá öllum aðildarþjóðum NPSA.
F.h. ÍSL hlupu þau Heiðrún Huld Finnsdóttir lögreglunni á Austfjörðum, Eiríkur B. Ragnarsson frá Héraðssaksóknara og Alexander Gautason frá lögreglunni á Suðurlandi. Þá stóð til að Katrín Ýr Árnadóttir hjá RLS myndi hlaupa en hún forfallaðist nokkrum vikum fyrir brottför. Jón S. Ólason var liðsstjóri og undirritaður var fararstjóri.
Okkar keppendur kláruðu hlaupið og náði Heiðrún sem var að hlaupa sitt fyrsta maraþon besta tímanum.

Tímarnir voru:
Heiðrún 03:36:39 hún varð í 15. sæti.
Alexander 04:23:54 hann varð í 24. sæti.
Eiríkur 04:29:02 hann varð í 25. sæti.
Allir þáttakendur í NPC mótinu gistu á Park Inn by Radison hótelinu sem er staðsett um 250 m. frá upphafs og endastað maraþonsins. Þess má geta að allir þátttakendur á NPC í knattspyrnu 2019 gistu á þessu sama hóteli.
Heimferðin gekk brösulega. Áætlunin var að fara í loftið kl. 09:05 frá Tallinn til Riga í Lettlandi og þaðan beint heim með Air Baltik og lenda í Keflavík um kl. 11:30. Völlurinn í Tallinn lokaðist vegna þoku um kl. 08:00 og við fórum ekki í loftið fyrr en um kl. 11:00 og vélin frá Riga farin í loftið til Keflavíkur og við ekki með henni heim. Snarlega lá svo ljóst fyrir að við færum til Kaupmannahafnar frá Riga og þaðan heim. Rúmlega 7 klst. bið á vellinum í Riga og síðan rúmlega 2 klst. í bið á Katrup. Lentum í Keflavík um kl. 23:00 og ferðatíminn því lengst um 12 klst. Öll dauðþreytt en ánægð að komast heim.
Ég vil þakka Heiðrúnu, Eiríki og Alexander fyrir að keppa fyrir hönd ÍSL og þeim og Jóni fyrir ánægjulega ferð.
Næsta NPC í maraþoni fer fram í Svíþjóð 2027.
Óskar Bjartmarz
formaður ÍSL

Scroll to Top