Lið Suðunesja sigraði Lögguhreysti 2014

 

Lið lögreglunnar á Suðurnesjum sigraði í fyrstu Lögguhreystikeppninni sem fram fór laugardaginn 13. september s.l.
Það voru 5 lið sem mættu til leiks en 10 – 12 lið höfðu tilkynnt um þátttöku en nokkur þeirra tilkynntu forföll á
síðustu stundu, jafnvel svo seint að sumir liðsmanna viðkomandi liðs vissu ekki um að lið þeirra væri hætt við að mæta
og mættu á staðinn. Hvert lið var skipað 4 aðilum og voru sum liðin skipuð bæði körlum og konum en önnur bara körlum.
Mótið tókst mjög vel til en það fór fram á bílaplaninu við Lögregluskólann við Krókháls en einnig barst leikurinn inn
í íþróttasal skólans. Talsvert var um áhorfendur og áhangendur liðanna á svæðinu til að fylgjast með og hvetja sitt lið.
Undirbúningsnefnd skipuð þeim Aðalsteini Bernharðssyni, Ingólfi Má Ingólfssyni, Jóhanni Karli Þórissyni og Gylfa Þór
Gíslasyni hafði veg og vanda að undirbúningi keppninnar. Aðalsteinn með kennara og nemendur úr lögregluskólanum stóð
að tímatökum og dómgæslu ásamt Ingólfi. Gylfi Þór sem mætti með sínum mönnum að vestan fylgdist með að allt færi vel fram
Besta brautartímann hjá körlunum átti Samúel A. W. Ólafsson Suðurnesjum 09:54 mín og besta tímann hjá konunum átti
Ragna Hjartardóttir Stöð 5 LRH   10,59 mín. Elsti keppandinn var Hlynur Snorrason yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum.
Úrslit:
1. Suðurnes með tímann 41,54 mín.
2. Lögregluskólinn með tímann 44,41 mín.
3. Stöð 5 LRH með tímann 46,31 mín
4. Stöð 3 LRH með tímann 48,00 mín.
5. Vestfirðir með tímann 48,13   mín.
Verðlaunaafhending fór fram um kvöldið í Félagsheimili LR í Brautarholti. Suðurnesja liðið fékk farandbikar til varðveislu
í eitt ár og eignabikar. Þrjú efstu liðin fengu verðlaunapeninga.
Það er ljóst að keppni þessi er komin til að vera og má reikna með að á næsta ári mæti fleiri lið til leiks. Margir höfðu á
orði að þeir söknuðu þess að sjá ekki lið frá Sérsveitinni, aldrei að vita nema þeir mæti á næsta ári.
Scroll to Top