Norðurlandamót Lögreglumanna, NPC, í Functional Fitness í karla- og kvennaflokki og liðakeppni, fór fram dagana 18. – 21. september s.l. Mótið fór fram í Sporthúsinu á Ásbrú.
Mótið átti upphaflega að fara fram í Finnlandi en þar sem Íþróttasamband Lögreglumanna í Finnlandi er óvirkt um þessar mundir var ljóst að mótið færi ekki fram þar. Af þeim ástæðum ákvað stjórn ÍSL að bjóðast til að halda mótið og var það þegið.
Í upphafi þegar var farið í að skoða með staðsetningu á mótshaldinu kom í ljós að best væri að hafa það á Ásbrú í Reykjanesbæ. Gisting, fæði og keppnisaðstaða, allt í örstuttu göngufæri hvort frá öðru. Gisting ákveðin á Konvin hótelinu, matur á Public deli og keppnin í Sporthúsinu á Ásbrú. Það má með sanni segja að öll aðstaða þar er til mikllar fyrirmyndar og með þeim betri í Evrópu og þó víðar væri leitað. Bæði til líkamsræktar- og fitness iðkunar.
Strax ákveðið að hafa mótið í september og komu tvær helgar til greina, 18. – 21. eða 25. – 28. Fljótlega var farið að vinna með fyrri dagsetninguna 18. – 21. september. Gisting pöntuð á Konvin hótelinu og gengið frá matarmálum á Public deli og að keppnin færi fram í Sporthúsinu á Ásbrú.
Fimmtudaginn 18. september allt tilbúið. Von á 46 norrænum kollegum okkar, þar af 39 keppendum. Norðmenn komu snemma um morguninn og var ekið beint á hótelið til að skilja eftir farangur, sem að var gert. Búið var að tala um það í undirbúningnum að gestir gætu byrjað að fá herbergi upp úr hádegi og farangurinn geymdur á hótelinu á meðan.
Um miðjan daginn þegar fyrstu norðmennirnir ætluðu að tékka sig inná hótelið kom babb í bátinn. Engin bókun fannst en við víðari leit fannst bókun á einn þann 25. september. Snögg yfirferð þegar þetta uppgötvast og undirritaður komst á hótelið leiddi í ljós að vegna misskilnings og mistaka áttum við bókað helgina á eftir og hótelið þessa helgi fullbókað.
Hvað ert gert í slíkum kringumstæðum á Íslandi. Það er farið í að bjarga málunum. Fljótlega kom í ljós að við gátum fengið inni fyrir allan hópinn á Courtyard by Marriott hótelinu í Reykjanesbæ, fyrstu nóttina. Þangað voru allir fluttir og fengu mjög góða gistingu á hótelinu með sömu niðurröðun á herbergi og átti að vera á Konvin hótelinu. Með aðstoð aðst. hótelstjóra á Courtyyard hótelinu var farið í að finna gistingu fyrir hinar tvær næturnar. Þarna var ljóst að við gátum ekki fengið herbergi á hótelinu hjá henni fleiri nætur, allt uppbókað.
Með hjálp frá aðst. hótelstjóranum komumst við í samband við Friðrik Einarsson á hótel Northern Light Inn í Svartsengi. Þar gátum við fengið inni fyrir 41 af 45, einn svíinn kom ekki til mótsins. Einhverjir urðu að vera í þriggja manna herbergjum en allir voru ánægðir með gistinguna. Þarna var ein góð gulrót við að dvelja á þessu hóteli, að stutt var í Bláa lónið sem nær allir sem voru á hótelinu nýttu sér. Fararstjórarnir voru síðan á Park Inn hótelinu í Keflavík þessa nótt.
Þess ber að geta hér að aðst. hótelstjórinn á Courtyard by Marriott hótelinu og Friðrik á Northern Light Inn hótelinu komu fram við okkur af höfðingsskap með verðlagningu fyrir þessar nætur, í ljósi aðstæðna hjá okkur.
Síðustu nóttina fengum við inni á hótel Keilir í Keflavík en þar var nóg af lausum herbergjum. Frétti síðar að það var vegna þess að Belgar sem höfðu verið hér í loftrýmisgæslu fóru einum degi fyrr en ætlað var. Heppilegt fyrir okkur en á því hóteli var ekki mikla miskunn að hafa með verðlagningu fyrir gistinguna.
Þrátt fyrir þessa erfiðleika í byrjun fór mótsetning fram á réttum tíma í Sporthúsinu. Margrét Kristín Pálsdóttir lögreglustjóri á Suðurnesjum setti mótið. Það voru lögreglumenn og konur frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Eistlandi og Íslandi sem voru mættir til leiks. Vegna stöðunnar í Finnlandi eins og segir í upphafi voru engir keppendur þaðan á mótinu.
Að lokinni mótssetningu fóru yfirdómarar yfir helstu atriði með keppendum.
Functional Fitness er sambærilegt við Cross Fit og við undbúning á mótshaldinu sjálfu nutum við aðstoðar frá Hjördísi Ósk Óskarsdóttur hjá CFXY í Kópavogi. Hún kom að því ásamt Finni Frey Kristjánssyni lögreglumanni og fleirum að setja upp æfingarnar sem keppt var í á mótinu. Hjördís sá síðan einnig um að fá dómara til að dæma á mótinu en þeir voru samtals um 10 þegar upp var staðið. Hjördís og Herdís Hallsdóttir voru yfirdómarar.
Mótið er einstaklingskeppni, í karla- og kvennaflokki og blönduð lið, karl og kona saman. Það geta verið 6 karlar og 6 konur frá hverju landi, 4 í karlaflokki, 4 í kvennaflokki og tvö og tvö í blönduðu liðunum.
Frá Íslandi var mæting á mótið mjög döpur. Nokkrum vikum fyrir mótið var reiknað með því að það yrðu 7 keppendur frá okkur. Þrjú í einstaklingskeppninni 2 konur og 1 karl og tvö blönduð lið. Fyrst datt út önnur konan í blönduðu liði, þá var ákveðið að önnur þeirra sem ætlaði að keppa í kvennaflokki myndi fara í annað liðið. Nokkrum dögum fyrir mótið duttu síðan báðar konurnar út í liðunum og liðin þar með úr keppninni. Körlunum stóð til boða að keppa í karlaflokki sem þeir einhverra hluta þáðu það ekki. Þannig að þegar upp var staðið var ein kona og einn karl frá Íslandi á mótinu. Það voru hins vegar þrjú sem mættu frá Eistlandi.
Keppendur okkar voru. Jóhanna Júlía Júlíusdóttir hjá lögreglunni á Suðurnesjum og Atli Barðason frá LRH: Finnur Kristjánsson var liðsstjóri og Óskar Bjartmarz var fararstjóri. Hvers vegna fararstjóri frá Íslandi, jú það er vegna þess að fararstjórar liðanna mynda dómstól ef einhver álitaefni koma upp á mótum.
Mótið hófst síðan snemma morguns þann 19. september. 38 keppendur eins og áður sagði 11 konur, 13 karlar og 7 lið í liðakeppninni samtals 14. Það voru tvö lið frá Noregi, Danmörku og Svíþjóð og eitt frá Eistlandi.
Á mótinu var keppt í 6 mismunandi æfingum (Wodum) í einstaklings og liðakeppninni. Sömu greinar í öllum flokkum með mismunandi styrkleika. Þrjár greinar hvorn dag.
Fyrsta greinin var Endurance þar sem reynir á úthald og þol keppandans. Í kvennaflokki leiddi Jóhanna eftir fyrstu æfinguna, fékk 100 stig.
Önnur greinin var Strenght, þar sem reynir á styrk og hæfni keppandans. Þarna náði Jóhanna sér ekki á strik og fékk aðeins 10 stig.
Þriðja greinin var Bodyweight sem eru æfingar með líkamsþyngd. Þarna náði Jóhanna sér á strik og fékk aftur fullt hús stiga eða 100.
Eftir fyrri dagin var Jóhanna í öðru sæti með 210 stig en Atli var í neðsta sæti í karlaflokki með 51 stig.
Í liðakeppninni leiddu Kathrine Juul Hacenberger/Lars Pape Møller 283 stig.
Seinni daginn var byrjað á; Skill eða tækni. Jóhanna fékk fullt hús stiga, 100 stig. Þarna er Jóhanna enn í öðru sæti.
Fimmta greinin var Mixed Modal Interval, blönduð æfing. Þarna fékk Jóhanna 70 stig og er orðin jöfn einni danskri í þriðja til fjórða sæti.
Sjötta og síðasta greinin var síðan Power sem eru sprengikraftsæfingar. Þarna fékk Jóhanna aðeins 10 stig og ljóst að hún endaði í fjórða sæti. Mjög góður árangur sem var henni til sóma. Atli átti hins vegar erfiðara mót og endaði í neðsta sæti þó átti hann sæmilega spretti inná milli og ekki alltaf í neðsta sæti í greinunum. Hann náði 78 stigum.
Í karlaflokki sigraði:
Oscar Sävhage Svíþjóð með 548 stig.
Í kvennaflokki sigraði:
Frid Kaspersen Noregi með 500 stig.
Liðakeppnina sigruðu:
Kathrine Juul Hacenberger/Lars Pape Møller Danmörku með 515 stig.
Þá er eftir að geta þess að þá fer fram á mótinu keppni milli þjóða. Þar telja 10 bestu í karla – og kvennaflokki og 6 efstu í liðakeppninni. Það að taka hverja grein út af fyrir sig, flækir aðeins útreikninginn. Það væri einfaldara að telja bara samanlagðan árangur hjá aðilum í framangreindum flokkum. Við verðlaunaafhendingu var Noregur sagður í öðru sæti og Svíar í þriðja sæti. Eftir mótið við yfirferð á útreikningunum kom í ljós að Svíar voru í öðru sæti og Norðmenn í þriðja.
Niðurstaðan eftirfarandi, eftir skoðun:
Best nation:
Danmörk með 3.056 stig
Svíþjóð með 2.730 stig
Noregur með 2.714 stig
Ísland með 423 stig
Eistland með 302 stig
Lokahófið fór fram á Public deli á Ásbrú og þar fór verðlaunafhending einnig fram.
Næsta mót á að fara fram 2029 í Noregi.
Að lokum við ég þakka öllum þeim sem komu að mótshaldinu sérstaklega, Hjördísi og hennar fólki, Ara og Evu í Sporthúsinu á Ásbrú og Drífu á Public deli á Ásbrú. Einnig þeim Jóhanni Karli Þórissyni varaformanni ÍSL og Kristínu Sigurðardóttur gjaldkera ÍSL sem stóðu vaktina allt mótið. Ekki síst vil ég þakka þeim Jóhönnu og Atla fyrir að keppa f.h. ÍSL á mótinu og Finni Frey Kristjánssyni fyrir hans hlut við mótshaldið.
Óskar Bjartmarz
formaður ÍSL