Fréttir

Þingi ÍSL 2020 sem fara átti fram í nóvember á síðasta ári var frestað vegna Covid 19 ástandsins. Stjórn ÍSL hefur nú boðað til þingsins laugardaginn 13. mars. n.k. kl. 16:00 í Brautarholti 30. Þingið verður með hefðbundnum hætti og að því loknu fer fram afhending heiðursmerkja ÍSL Fyrir þinginu liggur tillaga stjórnar um fækkun í stjórn.

Final four" í holukeppni ÍSL 2020 fór fram þriðjudaginn 8. september 2020. Það voru þeir Sigurbjörn Þorgeirsson, Trausti Freyr Jónsson, Guðbrandur Sigurðsson og Hinrik Konráðsson sem mættu til leiks. Þeir höfðu unnið sínar viðureignir í fyrri umferðum. Keppt var á Urriðavelli í Heiðmörkinni. Veður var þokkalegt þennan daginn. Það var dregið á staðnum um það hverjir lentu saman og í undanúrslitum lék Sigurbjörn á móti Guðbrandi  og Trausti lék á móti Hinriki. Sigurbjörn sigraði Guðbrand 3/2 og Trausti sigraði Hinrik 2/0. Um þriðja til fjórða sæti léku því þeir Guðbrandur og Hinrik og sigraði Guðbrandur 6/5. Til úrslita léku Sigurbjörn og Trausti. Sigurbjörn sigraði 5/4. Þetta er í fjórða skiptið sem Sigurbjörn verður holumeistari ÍSL.  Allt um úrslit í mótinu verður sett inná Úrslit móta hér á heimasíðu ÍSL.

Landsmót lögreglumanna í golfi 2020 fór fram í Vestmannaeyjum mánudaginn 20. júlí. Mótið fór fram í blíðskaparveðri, logni og sól. Þátttakendur voru 22 þar af 2 gestir. Sigurbjörn Þorgeirsson lögreglunni á Norðausturlandi sigraði á mótinu á 72 höggum, í öðru sæti varð gamla kempan Sigurður Pétursson á 74 höggum. Jafnir í þriðja til fjórða sæti á 83 höggum urðu heimamaðurinn Nökkvi Snær Óðinsson og Trausti Jónsson. Nökkvi hlaut þriðja sætið. Suðurnesin sigruðu í sveitakeppni en sveitina skipuðu þeir Óskar Halldórsson, Friðrik K. Jónsson og Kristján Fr. Geirsson. Allt um úrslit kemur fljótlega á síðuna, Úrslit: Mótahldið var í höndum heimamanna en þar voru fremstir í flokki Tryggvi Kr. Ólafsson og Nökkvi Snær Óðinsson. Kann ÍSL þeim kærar þakkir fyrir mótshaldið. Næsta mót á að vera í höndum LRH. Til gamans má geta þess að þetta er í sjöunda skipti sem Sigurbjörn sigrar á landsmóti ÍSL í golfi, Sigurður Pétursson hefur sigrað jafn oft á eftir þeim er Hilmar Björgvinsson sem hefur sigrað 6 sinnum.

Norðurlandamót lögreglumanna, NPC, í maraþoni fór fram samhliða H.C. Andersen maraþoninu í Óðinsvéum í Danmörku laugardaginn 27. september s.l. Mótið átti að fara fram í Finnlandi í ágúst, finnar sem eru að draga sig út úr samstarfi á sviði lögregluíþrótta vegna vandamála heima fyrir og urðu því að hætta við að halda mótið. Danir ákváðu að hlaupa í skarðið með skömmum fyrirvara og tóku aðsér mótshaldið. Frá Íslandi tóku þátt Birgir Már Vigfússon sem hljóp á 03:02:45 sek., Lárus Gohar Kazmi sem hljóp á 03:42:01 sek., Linda B. Thorberg sem hljóp á 03:54:38 sek. og Hálfdán Daðason sem hljóp á 04:23:34 sek.. Guðmundur A. Jónsson RLS tók einnig þátt í hlaupinu en hann hljóp á 04:21:23 sek.. Thorkild Sundstrup Danmörku sigraði í karlaflokki en hann hljóp á 3:29 mín. og í kvennaflokki sigraði Kaisa Kukk Eistlandi sem hljóp á 4:00 mín. en þess má geta að hún sigraði einnig á NPC maraþonmótinu á Íslandi 2015. Hálfdán Daðson var einnig liðs- og fararstjóri á mótinu í Óðinsvéum og vegna starfa sinna náði hann ekki að hita upp fyrir hlaupið. 

Mótið fór fram laugardaginn 30. nóvember 2019 í Sporthúsinu í Kópavogi. Það voru 3 lið sem mættu í karlaflokki og 3 lið í kvennaflokki. Kepp var í 3 Wodum. Í kvennaflokki sigruðu þær Sandra Hrönn Arnardóttir og Þóra Björk Þorgeirsdóttir. sem báðar starfa hjá LRH Í karlaflokki sigruðu þeir Finnur Kristjánsson og Guðjón Smári Guðmundsson sem einnig starfa hjá LRH. Sandra fékk bikar fyrir bestu frammistöðuna í kvennaflokk iog Finnur fékk einnig bikar fyrir bestu frammistöðuna í karlaflokki. Nánar um árangurinn í mótinu undir Úrslit móta.

Öldungamót ÍSL í innanhússknattspyrnu 2019 fór fram dagana 27. - 28. september s.l. á  Akureyri. Það voru 5 lið sem mættu til leiks og í fyrsta skipti var keppt á gervigrasi, mótið fór fram í Boganum. Liðin voru RLS, Suðurnes/Vestfirðir, Norðurland, LRH og Vesturland. RLS sigraði vann þrjá leiki og gerði eitt jafntefli. Í öðru sæti varð Suðurnes/Vestfirðir og í þriðja sæti urðu heimamenn Norðurland. Þetta fyrirkomulag að keppa á gervigrasi fór vel í menn og virtist almenn ánægja með það. Því hefur verið ákveðið að næsta mót fari einnig fram á Akureyri og að keppt verður á gervigrasi. All um úrslti kemur fljótlega undir: Úrslit móta.

Final four" í holukeppni ÍSL 2019 fór fram mánudaginn 23. september 2019. Það voru þeir Jóhannes Harðarson, Páll Theodórsson, Sigurbjörn Þorgeirsson og Trausti Freyr Jónsson sem mættu til leiks. Þeir höfðu unnið sínar viðureignir í fyrri umferðum. Keppt var á Urriðavelli í Heiðmörkinni. Þegar keppni hófst var bjart en svo fór að rigna seinnipartinn. Það var dregið á staðnum um það hverjir lentu saman og í undanúrslitum lék Sigurbjörn á móti Trausta og Jóhannes lék á móti Páli. Sigurbjörn sigraði Trausta 3/2 og Páll sigraði Jóhannes á 17. holu 2/1. Um þriðja til fjórða sæti léku því þeir Trausti og Jóhannes og sigraði Trausti 3/2. Til úrslita léku Sigurbjörn og Páll. Sigurbjörn sigraði á 16. holu 3/2. Þetta er í þriðja skiptið sem Sigurbjörn verður holumeistari ÍSL.  Allt um úrslit í mótinu kemur fljótlega inná Úrslit móta hér á heimasíðu ÍSL.

Final four" í holukeppni ÍSL 2018 fór fram föstudaginn 07. september 2018. Það voru þeir Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri, Róbert Sigurðarson, Rúnar Örn Grétarsson og Sigurbjörn Þorgeirsson sem mættu til leiks. Þeir höfðu unnið sínar viðureignir í fyrri umferðum. Keppt var á velli GR í Grafarholti. Það var hæglætis veður þegar keppni hófst en svo fór að blása og þegar yfirlauk undir kvöld var vindhraðinn um 15 m. Það var dregið á staðnum um það hverjir lentu saman og í undanúrslitum lék Karl Ingi á móti Sigurbirni og Róbert lék á móti Rúnari. Undanúrslitin voru hnífjöfn. Sigurbjörn knúði fram sigur gegn Karli á 18 holu, 1/0 og Rúnar sigraði Róbert á 17. holu 2/1. Um þriðja til fjórða sæti léku því þeir Karl og Róbert og sigraði Karl 7/6. Til úrslita léku þeir Rúnar og Sigurbjörn. Sigurbjörn sigraði á 16. holu 4/2. Þetta er í annað sinn sem Sigurbjörn verður holumeistari ÍSL en fyrra sinnið var 2016. Allt um úrslit í mótinu kemur fljótlega inná Úrslit móta hér á heimasíðu ÍSL.

Sigurbjörn varð Íslandsmeistari lögreglumanna í golfi á landsmótinu sem fram fór á Garðavelli Akranesi fimmtudaginn 18. júlí, hann spilaði á 75 höggum. Páll Theodórsson varð í öðru sæti á 78 höggum og í þriðja sæti varð Trausti Freyr Jónsson á 80 höggum. LRH sigraði sveitakeppnina en sveitina skipuðu þeir Páll Theodórsson, Ásbjörn Stefánsson og Egill Egilsson en þeir spiluðu á 254 höggum. Það voru 37 keppendur sem mættu til leiks og veður var eins og best var á kosið, sólskin og vindur tiltökulega hægur. All um úrslit kemur fljótlega hér á síðuna undir: Úrslit móta. Myndir koma síðan á myndasíðuna en myndtökur önnuðust Jónas Hallgrímur Ottósson lögreglufulltrúi á Vesturlandi og Óskar Bjartmarz. Mótshald var í höndum Vestlendinga með Trausta Frey Jónson í fararbroddi. Íþróttasamband Lögreglumanna, ÍSL, þakkar Vestlendingum fyrir gott mótshald.

Þá er Norðurlandamóti lögreglumanna/kvenna í knattspyrnu 2019 lokið í Tallinn í Eistlandi. Íslenskar lögreglukonur gerðu sér lítið fyrir og náðu þriðja sæti á sínu fyrsta móti. Frábær árangur liðsins en einstakur baráttuvilji var það sem einkenndi leiks þess. Íslenska liðið tapaði 1 - 2 fyrir Noregi sem sigraði á mótinu, Svíþjóð varð í öðru sæti, Danmörk í því fjórða og gestgjafarnir Eistar urðu í fimmta sæti. Þær norsku voru með markatöluna 25 - 3.

Í karlaflokki sigraði Danmörk, Noregur varð í öðru sæti, Svíþjóð í þriðja, Ísland í fjórða og eins og í kvennaflokki urðu gestgjafarnir Eistar í fimmta sæti. Þess má geta að Ísland tapaði fyrir dönum 0 - 1 en þeir skoruðu sigurmarkið á lokamínútu leiksins þeirri 94.

F.h. ÍSL vil ég þakka öllum keppendum, öðrum þátttakendum og þjálfaranum Þormóði Egilssyni fyrir þeirra störf og frábæra ferð.